26.12.2024 | 13:49
Lifandi kristindómur og ég
Aldamótaveturinn geisaði illkynjuð inflúensa um alla Skaftafellssýslu. Fólkið dyngdist niður unnvörpum, og margir dóu. Á heimili foreldra minna lögðust allir nema ég. Von bráðar létti samt sóttinni af heimilinu, og fólk komst aftur til verka sinna. Amma mín fékk þó einhverja illkynjaða plágu upp úr inflúensunni, og lá hún þungt haldin margar vikur. Um sumarmálin var prests loks vitjað, til þess að þjónusta hana. Þann dag sáust engin batamerki á gömlu konunni. Presturinn kom með kaleik og patínu og klæddist skósíðri hempu. Alt heimilisfólkið safnaðist saman í baðstofunni. Síðan var sunginn sálmur við rúm ömmu minnar, og presturinn flutti ræðu og gaf henni oblátur og messuvín. Og svo var aftur sunginn sálmur. Ég sat á kistu gegnt rúmi veslings ömmu og einblíndi forviða a prestinn og sakramentið. Við og við gaut ég forvitnisaugum til aumingja ömmu minnar, sem lá bleik og stynjandi í rúminu á móti mér. Í baðstofunni ríkti hátíðleg og innileg trúarhrifning. Og ég bað þess með tárin í augunum, að Guð tæki ekki ömmu mína til sín. Ég var sannfærður um, að henni hlyti að þykja miklu skemmtilegra heima hjá okkur en uppi á þessum himnum, sem enginn vissi, hvar væru. Ég beið umskiftanna með brennandi óþreyju. Skyldi henni nú batna? Eða skyldi Guð vera svo ónærgætinn að taka hana til sín? Undir eins og búið var að syngja síðari sálminn, reis amma mín upp við ölnboga í rúminu, talaði, brosti og lék á alsoddi. Eftir nokkra daga var hún komin á fætur og kenndi sér einskis meins. Svo áþreifanlegur var kraftur lifandi trúar á heimili foreldra minna. Gera þeir það betur vestur á Ási eða austur í Kína?
(Úr grein Þórbergs Þórðarsonar sem birtist í í Tímaritinu IÐUNN 1928, bls. 251: Lifandi kristindómur og ég. Þórbergur lýsir hérna atburðum sem gerðust aldamótaárið 1900, þegar hann var 12 ára.)
Biskup: Guðleysi er ekki hlutleysi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Bloggfærslur 26. desember 2024
Um bloggið
Guðmundur Örn Ragnarsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar